Fótbolti

Vara sína menn í Nígeríu við litla Íslandi á HM: „Við vitum ekkert um þá“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands. vísir/ernir
John Fashanu, fyrrverandi framherji Wimbledon í ensku úrvalsdeildinni, varar Nígeríumenn við því að mæta Íslandi í riðlakeppni HM 2018 en þjóðirnar drógust saman í riðil í síðust viku.

Fashanu er Englendingur en faðir hans er frá Nígeríu og hefur hann því alltaf bundist nígeríska landsliðinu tryggðarböndum. Hann ræðir riðilinn á vefnum ThisDayLive þar sem hann segir strákana okkar vera einskonar huldulið sem enginn vill mæta.

„Ég er ánægður með að vera í sama riðli og Argentína því þegar að við spilum á móti Argentínumönnum spilum við alltaf mjög vel. Ég vildi samt ekki vera í sama riðli og Ísland,“ segir Fashanu.

„Ísland er hulduliðið sem enginn veit neitt um. Þetta er lið sem hefur engu að tapa og allt að vinna. Þarna gæti Nígería farið illa að ráði sínu,“ segir John Fashanu.

Fashanu, sem er 55 ára gamall í dag, spilaði tæplega 400 leiki í tveimur efstu deildum enska boltans og skoraði 150 mörk en hann spilaði tvo landsleiki fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×