Fótbolti

Donnarumma hágrét eftir leik út af stuðningsmönnum sem vilja losna við hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gennaro Gattuso reynir að hugga Gianluigi Donnarumma.
Gennaro Gattuso reynir að hugga Gianluigi Donnarumma. vísir/getty
Gianluigi Donnarumma, 18 ára gamall markvörður AC Milan, hágrét eftir 3-0 sigurleik liðsins gegn Hellas Verona í ítalska bikarnum í gærkvöldi, bæði úti á vellinum eftir lokaflautið og inn í klefa.

Ástæðan er meðferð stuðningsmanna á markverðinum unga en hann á ekkert inni hjá þeim eftir að hann vildi losna frá félaginu í sumar og fréttir eru nú í gangi á Ítalíu að hann vill enn þá fara.

Donnarumma skrifaði undir flottan samning í sumar sem tryggir honum sex milljónir evra í árslaun auk þess sem að bróðir hans var fenginn til félagsins en stuðningsmennirnir kalla Antonio Donnarumma, bróður Gianlugi, „sníkjudýr“.

Nú eru í gangi á Ítalíu fréttir þess efnis að Donnarumma vilji ógilda samninginn sinn þar sem hann hafi verið neyddur til að skrifa undir en eftir að þær fréttir fóru í gang misstu stuðningsmenn Mílanó-liðsins alla þolinmæði gagnvart markverðinum unga.

„Það var andlegt ofbeldi að gefa þér sex milljóna evra samning og semja við sníkjudýrið bróður þinn. Nú þarftu að fara. Þolinmæði okkar gagnvart þér er á þrotum,“ stóð á stórum borða upp í stúku á San Siro í gærkvöldi.

Stuðningsmennirnir bauluðu á Donnarumma allan leikinn og sungu um hann níðsöngva en þetta varð til þess að hann brotnaði niður eftir leik þar sem Gennaro Gattuso, þjálfari AC Milan, og Leonardo Bonucci, fyrirliði liðsins, reyndu hvað þeir gátu að hugga markvörðinn unga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×