Handbolti

Danir slógu heimakonur út

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mette Tranborg skoraði 5 mörk fyrir Dani
Mette Tranborg skoraði 5 mörk fyrir Dani vísir/getty
Frakkland, Svartfjallaland, Svíþjóð og Danmörk komust í 8-liða úrslit Heimsmeistaramóts kvenna í handbolta í dag.

Frakkar unnu Ungverja í hörku leik 26-29. Frakkar voru með yfirhöndina mest allan leikinn, en náðu þó aldrei að slíta Ungverjana alveg frá sér og var spenna í leiknum allan tímann.

Svartfellingar mættu fyrrum samlöndum sínum frá Serbíu. Serbar byrjuðu leikinn betur, en Svartfellingar komust í fimm marka forystu undir lok fyrri hálfleiksins.

Þær héldu fimm, sex marka forystu út megnið af leiknum þar til undir lokin þegar Serbar náðu aðins að krafsa í bakkann. Munurinn var í lokinn aðeins tvö mörk, 29-31.

Svíar áttu ekki í neinum vandræðum með Slóvena. Þær komust fljótt í góða forystu og var augljóst í hvað stefndi. Mest fór munurinn á átta mörk í fyrri hálfleik, en staðan í leikhléi var 18-12.

Áfram héldu þær sænsku í seinni hálfleik og gáfu í. Svo fór að lokum að þær sigruðu með 12 mörkum, 33-21.

Varnarleikur einkenndi viðureign heimakvenna í Þýskalandi og Danmerkur. Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir tvær og hálfa mínútu og var staðan aðeins 7-11 þegar flautað var til leikhlés, Danmörku í vil.

Danir voru skrefinu á undan allan seinni hálfleikinn, komust í sjö stiga forystu þegar fimm mínútur voru eftir og fóru að lokum með fjögurra marka sigur, 17-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×