Handbolti

Stórleikur Guðjóns Vals hélt Ljónunum á toppnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Guðjón Valur Sigurðsson átti stórleik í liði Rhein-Neckar Löwen sem bar sigurorð af Flensburg í þýsku Bundesligunni í handbolta í kvöld.

Guðjón skoraði 9 mörk úr 10 skotum, en þar af voru þrjú mörk af vítalínunni. Guðjón hefur svo sannarlega átt góðan dag, en hann framlengdi samning sinn við Rhein-Neckar fyrir leikinn og fyrr í dag var hann nefndur handboltamaður ársins af HSÍ.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir ljónin sem sigruðu með fimm mörkum, 32-27. Staðan í hálfleik var 20-16 fyrir Rhein-Neckar.

Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar lágu á heimavelli fyrir Bjarka Má Elíssyni og félögum í Fuchse Berlin, 23-27.

Bjarki Már skoraði 3 mörk í leiknum, en sigur Berlin var aldrei í hættu, liðið leiddi 10-15 í hálfleik.

Alfreð Gíslason stýrði sínum mönnum í Kiel til sjö marka sigurs á Göppingen, 22-29.

Rúnar Kárason skoraði eitt mark í sigri Hannover-Burgdorf á Lemgo.

Löwen er með eins stigs forystu á Fuchse Berlin á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×