Fótbolti

Strákarnir enda magnað ár í 22. sæti heimslistans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands. vísir/ernir
Ísland endar magnað knattspyrnuár 2017 í 22. sæti styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, en síðasti listi ársins var gefinn út í morgun.

Raunar er engin breyting á stöðu efstu 35 liða á listanum og stendur Ísland því í stað á milli lista. Strákarnir voru stóran hluta árs efsta Norðurlandaþjóðin á listanum en bæði Danir (12. sæti) og Svíar (18. sæti) tóku stórt stökk upp á við í lok ársins er báðar þjóðir tryggðu sig inn á HM í umspilinu í nóvember.

Íslendingar voru þá búnir að tryggja sinna farseðil til Rússlands en það gerðu þeir með því að vinna sinn riðil í október.

Heimsmeistarar Þýskalands eru í efsta sæti listans, á undan Brasilíu og Evrópumeisturum Portúgals. Argentína, sem Ísland verður með í riðli á HM í sumar, er svo í fjórða sætinu. Króatía er í 17. sæti og Nígería í 51. sæti en bæði lið eru sömuleiðis með Íslandi í riðli.

Ísland náði best 19. sæti á heimslistanum á þessu ári og er það besti árangur liðsins frá upphafi. Strákarnir voru aldrei neðar en í 23. sæti á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×