Körfubolti

51 stig frá Harden dugði ekki gegn Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kyle Kuzma var magnaður í nótt.
Kyle Kuzma var magnaður í nótt. Vísir/Getty
LA Lakers vann öflugan sigur á frábæru liði Houston Rockets í NBA-deildinni í nótt, 122-116, og batt þar með enda á fjórtán leikja sigurgöngu Houston. Skipti engu þótt að James Harden hafi skorað 51 stig fyrir Houston í leiknum.

Lakers hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir leikinn í nótt en nýliðinn Kyle Kuzma fór á kostum fyrir gestina og skoraði 38 stig, þar af setti hann niður sjö þriggja stiga körfur.





Í stöðunni 100-100 skoraði Lakers tíu stig í röð en á sama tíma klikkaði Houston á sjö skotum í röð. Heimamenn náði ekki að brúa bilið eftir það.

Þetta var fyrsti tapleikur Houston þegar Chris Paul spilar með liðinu. Hann skoraði átta stig en fór af velli snemma í fjórða leikhluta vegna meiðsla í fæti og sneri ekki aftur.

Golden State vann Memphis, 97-84, og þar með sinn tíunda sigur í röð. Klay Thompson skoraði 29 stig fyrir Golden State og Kevin Durant 22. Þetta var sextánda tap Memphis í síðustu átján leikjum liðsins.

Miami vann óvæntan sigur á Boston, 90-89. Kelly Olynyk skoraði 32 stig en Kyrie Irving fékk opið skot í lokin sem hefði tryggt Boston sigur en það geigaði. Irving var með 33 stig í leiknum.



Oklahoma City vann Utah, 107-79. Russell Westbrook var með 24 stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

New Orleans - Toronto 111-129

Atlanta - Indiana 95-105

Boston - Miami 89-90

Brooklyn - Sacramento 99-104

Chicago - Orlando 112-94

Houston - LA Lakers 116-122

Oklahoma City - Utah 107-79

Dallas - Detroit 110-93

Denver - Minnesota 104-112

Portland - San Antonio 91-93

Golden State - Memphis 97-84

LA Clippers - Phoenix 108-95

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×