Körfubolti

Dómararnir trúðu því ekki að boltinn hefði farið í körfuna | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manu Ginóbili reyndi að sannfæra dómarana um að "skotið“ hans hefði í raun farið í körfuna.
Manu Ginóbili reyndi að sannfæra dómarana um að "skotið“ hans hefði í raun farið í körfuna. Vísir/Getty
Manu Ginóbili er leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta og Argentínumaðurinn snjalli hefur skorað ófáar þriggja stiga körfur á ferli sínum. Sú sem hann skoraði í nótt er þó örugglega sú óvenjulegasta.

Manu Ginóbili var að spila með San Antonio Spurs í Madison Square Garden í New York en þetta var hans 1024. leikur í NBA á ferlinum.

Karfan sem Ginóbili skoraði í nótt kom svo á óvart að allir þrír dómarar leiksins tóku ekki eftir því að boltinn fór í körfuna. Engin stig fóru því upp á töflu til að byrja með.







Dómarar leiksins voru reyndar ekki þeir einu því Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs, viðurkenndi eftir leikinn að hann missti líka af þessu.

Manu Ginóbili ætlaði að reyna að háa sendingu á LaMarcus Aldridge inn í teig en hún „mistókst“ svo illa að boltinn fór þess í stað beina leið í körfuna.

Leikmenn mótherjanna í New York Knicks létu eins og um tapaðan bolta væri að ræða og brunuðu í sókn. Dómararnir gerðu engar athugasemdir fyrr en Ginóbili grátbað þá um að skoða þetta betur sem þeir og gerðu.

Manu Ginóbili fékk því á endanum stigin sín þrjú upp á töflu en hann endaði með tvær þriggja stiga körfur og tólf stig í 100-91 sigri.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×