Handbolti

Guðmundur og Dagur byrjuðu báðir á stórsigri í Asíukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. mynd/samsett
Íslensku handboltaþjálfarnir Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson byrja mjög vel með landsliðin sín í Asíukeppninni í handbolta sem hófst í Suður-Kóreu í dag.

Barein vann 23 marka sigur á Ástralíu, 33-10, eftir að hafa verið 12-6 yfir í hálfleik. Lærisveinar Guðmundar hreinlega keyrðu yfir ástralska liðið í seinni hálfleik sem Barein vann 21-4.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem landslið undir stjórn Guðmundar vinnur stórsigur á landsliði Ástrala en Ísland vann 40 marka sigur undir stjórn Guðmundar, 55-15,  á HM í Portúgal 2003.

Ahmed Fadhu var markahæstur í liði Barein með átta mörk þar af komu fimm þeirra úr hraðaupphlaupum.

Barein er einnig með Óman í riðli en þau mætast ekki fyrr en á laugardaginn. Ómar og Ástralía spila á morgun.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Japan unnu ellefu marka sigur á Úsbekistan, 38-27, eftir að hafa verið 19-12 yfir í hálfleik. Japanska liðið vann seinni hálfleikinn 19-15. Adam Yuki Baig var markahæstur hjá japanska liðinu með átta mörk.

Íran er þriðja liðið í riðlinum en Japan spilar ekki við Íran fyrr en á laugardaginn. Íran og Úsbekistan mætast á morgun. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×