Handbolti

Nora Mörk svarar Myrhol: Hefur ekki misst trúna á öllum karlmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk.
Nora Mörk. Vísir/Getty
Norska handboltakonan Nora Mörk hefur nú svarað gagnrýni fyrirliða norska karlalandsliðsins en Bjarte Myrhol gagnrýndi hana fyrir slæma tímasetningu á því þegar hún sagði frá því að viðkvæmar myndir af henni hefðu gengið á milli leikmanna norska karlalandsliðsins í handbolta.

Bjarte Myrhol og félagar í norska karlalandsliðinu eru í miðju Evrópumóti og voru að undirbúa sig fyrir lokaleik riðilsins á móti Austurríki í gær þegar viðtalið við Noru birtist.

Myrhol sagði ennfremur að hann og hópur leikmanna karlalandsliðsins hafi talað við Noru Mörk vegna þessa máls og stutt við bakið á henni í þessu erfiða máli.

Nora Mörk sendi frá sér tölvpóst til norskra fjölmiðla þar sem hún segir það að það hafði verið sárt að lesa það að Myrhol einblíni á tímasetninguna því hún hafi alltaf litað á hann sem gegnheilan mann.  Dagbladet segir frá og líka Verden Gang.







„Ég gat ekki stjórnað tímasetningunni og er bara að glíma við afleiðingar þess að stjórnarmenn í handboltasambandinu unnu ekki sína vinnu,“ skrifaði Nora.

„Ég bið alla að reyna að trúa því og skilja að ég hafði ekkert með tímasetninguna að gera,“ sagði Nora og biður alla að hugsa aðeins um það sem hún hefur þurft að ganga í gegnum sem kona.

„Ég verð nakin og berskjölduð alla mína ævi. Ég mun aldrei vita hverjir hafa séð mig. Ég finn fyrir pressunni af því á hverjum degi, öll kvöld og allar nætur,“ segir Nora en hún endaði yfirlýsinguna síðan á þessari setningu:

„Ég hef samt ekki misst trúna á öllum karlmönnum,“ skrifaði Nora.


Tengdar fréttir

Fyrirliði karlalandsliðsins gagnrýnir tímasetninguna hjá Noru

Norska handboltalandsliðið tryggði sér í gær sæti í milliriðli á EM í Króatíu eftir öruggan ellefu marka sigur á Austurríkismönnum. Það gekk hinsvegar mikið á í kringum liðið í aðdraganda leiksins eftir yfirlýsingu landsliðskonunnar Noru Mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×