Körfubolti

KKÍ rukkar inn á bikarúrslit yngri flokkanna í ár: „Ánægjulegt hvað hreyfingin tekur vel í þetta“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grindavíkurstelpurnar urðu bikarmeistarar í Laugardalshöllinni í fyrra.
Grindavíkurstelpurnar urðu bikarmeistarar í Laugardalshöllinni í fyrra. Mynd/KKÍ
Það verður ekki ókeypis á bikarúrslitaleiki yngri flokkanna í körfuboltanum eins og undanfarin ár. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir mikinn kostnað fylgja því að halda úti glæsilegri umfjörð um leiki krakkanna í Laugardalshöllinni og segir sambandið hafa verið að íhuga þetta í nokkur ár.

Körfuknattleikssambandið mun rukka þúsund krónur fyrir sextán ára og eldri sem koma í Laugardalshöllina til að horfa á leikina.

Í dag hefjast Maltbikarúrslit yngri flokka en það eru tveir úrslitaleikir á dagskránni í kvöld í Laugardalshöllinni, en það eru úrslitaleikir í 10. flokki drengja og stúlkna.

Sá miði sem fólk kaupir fyrir þúsund krónur gildir á alla sjö bikarúrslitaleiki helgarinnar sem fara fram á föstudag og sunnudag.

Það verður þó hægt að horfa á leikina án þess að greiða fyrir það því KKÍ sendir út beint á YouTube-rás (youtube.com/user/KKIkarfa) sinni beint frá öllum úrslitaleikjum yngri flokka föstudag og sunnudag, að undanskildum leikjum Unglingaflokks karla og Stúlknaflokks, sem verða í beinni á RÚV á sunnudaginn.

„Þetta hefur verið í umræðunni í nokkur ár og sérstaklega síðustu tvö árin eftir að við fórum að vera með þetta í Laugardalshöllinni heila helgi. Umgjörðin er orðin mjög mikil í kringum yngri flokka leikina og hefur tekið stakkaskiptum á allra síðustu árum, “ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, þegar Vísir forvitnaðist um ástæður þess að KKÍ tók upp á því núna að rukka inn á leikina.

„Umgjörð og vinna í kringum þetta er mjög mikil því krakkarnir eru að fá nákvæmlega sömu umgjörð og meistaraflokkarnir. Svona umgjörð kostar fullt af peningum. Leiga, vinna og annað sem er í gangi. Þetta er bara til að hafa upp í þann kostnað sem fylgir því að vera með svona framkvæmd í nokkra daga,“ sagði Hannes.

Hannes Jónsson.Vísir/Eyþór
„Þetta eru þúsund krónur inn á sjö leiki þannig að þetta er undir 150 krónum sem hver leikur kostar,“ sagði Hannes og bætir við: „Þrátt fyrir þetta þá þurfum við að vera með aðra vinnu í kringum þetta til að ná upp í þann kostnað sem fylgir því að vera með þetta. Það er ekki eins og bara þetta muni bjarga öllum kostnaði því kostnaður við svona bikarhelgi eru nokkrar milljónir,“ sagði Hannes.

Hannes vekur athygli á því að þetta sé ekki nýtt á Íslandi.

„Þetta hefur verið í umræðunni undanfarin ár því þetta er engin nýlunda í íþróttagreinum hér á landi. Þetta er gert á langflestum stöðum í barna- og unglingaíþróttum. Vandinn er sá að boltagreinarnar hafa ekki verið að gera þetta. Það má segja að boltagreinarnar hafi ekki þorað að ríða á vaðið með þetta,“ sagði Hannes.

„Ég hélt að þetta yrði viðkvæmara mál en við fáum almennt jákvæð viðbrögð frá hreyfingunni. Fólki finnst þetta mjög eðlilegt til að hafa upp í þennan kostnað sem er í kringum þetta. Það er ánægjulegt hvað hreyfingin tekur vel í þetta,“ segir Hannes.

„Ég vek athygli á því að þetta er undir 150 krónum á leik en í mörgum öðrum íþróttagreinum ertu að fara inn á viðburð, þar sem börnin þín eru að æfa, þar sem er verið að rukka allt að tvö þúsund krónur fyrir manninn á eitt lítið mót,“ sagði Hannes.

„Það er því alls ekki eins og íþróttahreyfingin sé að finna þetta upp af því að körfuboltahreyfingin ákvað að rukka einu sinni inn á bikarúrslit yngri flokka. Það pínu áhugavert að finna fyrir þeim mikla áhuga á þessu og þá sérstaklega frá fjölmiðlum,“ sagði Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×