Fótbolti

Nígeríumenn undirbúa sig fyrir Ísland með því að mæta Englandi á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Obi Mikel, fyirrliði nígeríska landsliðsins, þekkir vel til í London.
John Obi Mikel, fyirrliði nígeríska landsliðsins, þekkir vel til í London. Vísir/Getty
Nígería verður með Íslandi í riðli á heimsmeistaramótinu í fótbolta í sumar og þjóðirnar munu mætast í öðrum leik sínum í Rússlandi.

Þjóðirnar hafa báðar verið að leita sér að andstæðingum fyrir undirbúningsleiki fyrir keppnina og Nígeríumenn náðu samkomulagi um að mæta liðinu sem litla Ísland niðurlægði á EM í Frakklandi sumarið 2016.

Nígeríumenn undirbúa sig nefnilega fyrir heimsmeistarakeppnia með því að mæta Englendingum á Wembley rétt áður en þeir fara til Rússlands.

Enska knattspyrnusambandið tilkynnti um að lokaleikir enska landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið verða á móti Nígeríu og Kosta Ríka eða þjóð frá Afríku og þjóð frá Mið-Ameríku.  

Enska landsliðið mætir einmitt þjóð frá Afríku (Túnis) og þjóð frá Mið-Ameríku (Panama) í sínum riðli en í þeim riðli er einnig Belgía.  

Nígeríska landsliðið kemur í heimsókn á Wembley 2. júní og fimm dögum síðar mætir enska landsliðið Kosta Ríka á Elland Road sem er heimavöllur Leeds United.

Fyrsti leikur enska landsliðsins á HM er á móti Túnis 18. júní en fyrsti leikur Nígeríu á HM er á móti Króatíu tveimur dögum fyrr. Sama dag mætir íslenska landsliðið Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu.

Ekki er enn vitað hvaða þjóðum íslenska landsliðið mætir á Laugardalsvellinum í júní áður en strákarnir okkar fljúga til Rússlands. KSÍ segist vera að vinna í þeim málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×