Tuttugu og níu kynferðisbrot gegn börnum eru nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Nokkur stígandi hefur verið í fjölda mála sem eru til rannsóknar hjá embættinu í viku hverri frá miðju ári 2017 og fyrstu vikur ársins 2018. Á þessum tíma hefur málum fjölgað frá 11 á viku og upp í 29.
„Málin eru óvenju mörg á borði lögreglu um þessar mundir,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur segist þó vilja fara varlega í að túlka tölfræðina of mikið, en segist aðspurður ekki útiloka að umræðan sem skapast hefur í kringum #metoo-byltinguna hafi eitthvað með aukninguna að gera. „Öll aukin umræða í samfélaginu eykur vitund fólks og það má vel vera að það tengist þessari fjölgun á þann hátt.“
Þá segir Grímur að verið sé að taka kynferðisbrot gegn börnum föstum tökum innan embættisins, meðal annars í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld á borð við Europol. Þannig hafi tveir starfsmenn embættisins í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarið verið í sérstakri þjálfun til að takast á við stafræn ofbeldisbrot gegn börnum.
„Við höfum verið að reyna að taka á slíkum málum hratt og örugglega. Þjálfunin sem þessir tveir starfsmenn embættisins hafa verið í snýr meðal annars að því að greina alls konar hluti í umhverfi myndbanda eða mynda sem sýna barnaníðefni svo hægt sé að átta sig á því hvar brotið fer fram.
Við, og lögregluyfirvöld víða um heim sem við erum í samstarfi við, erum að sjálfsögðu að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stemma stigu við brotum gegn börnum.“
Grímur segir þó ekki mörg mál hafa komið inn á borð lögreglunnar hér á landi, þar sem íslensk börn eru viðfang stafræns ofbeldis.
Óvenju mikill fjöldi kynferðisbrota gegn börnum hjá lögreglu

Tengdar fréttir

Karlmaður í haldi grunaður um kynferðisbrot gegn pilti
Er hann meðal annars grunaður um að hafa greitt piltinum fyrir kynferðislegar athafnir. Þá leikur grunur á að hann hafi brotið gegn fleiri börnum.