Handbolti

Ljónin fengu fjögur mörk á sig í fyrri hálfleik gegn Lemgo

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Valur skoraði fjögur mörk í kvöld.
Guðjón Valur skoraði fjögur mörk í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen lentu í engum vandræðum með Lemgo á heimavelli í kvöld. Ljónin eru á toppi deildarinnar með þriggja stiga forskot á Hannover Burgdorf.

Löwen voru í rosalegum ham í fyrri hálfleik. Þeir fengu einungis fjögur mörk á sig í fyrri hálfleik og leiddu með nítján marka mun í hálfleik, 23-4.

Síðari hálfleikurinn var því afar auðveldur fyrir heimamenn sem unnu að endingu með 21 marks mun, 38-17. Guðjón Valur Sigurðsson gerði fjögur mörk og Alexander Petersson tvö.

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í HC Erlangen töpuðu, 29-20, á heimavelli gegn Flensburg. Flensburg leiddi í hálfleik 11-7 og eftirleikurinn varð nokkuð auðveldur.

Erlangen er í þrettánda sæti deildarinnar, en Flensburg er í því fjórða, stigi á eftir Hannover-Burgdorf sem vann einnig í kvöld. Rúnar Kárason komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×