Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 28-18 │Stórt tap í Slóveníu

Benedikt Grétarsson skrifar
Helena Rut Örvarsdóttir var mögnuð í kvöld og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum.
Helena Rut Örvarsdóttir var mögnuð í kvöld og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum. Vísri/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tapaði 28-18 fyrir Slóveníu þegar liðin mættust í Celje í Slóveníu. Leikurinn var liður í undankeppni EM sem haldið verður í Frakklandi í lok árs. Ísland á ennþá tölfræðilegan möguleika á sæti á EM en þarf þá að vinna bæði Dani og Tékka í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum. Miðað við frammistöðuna í dag, er það ansi fjarlægur möguleiki.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði fjögur mörk og Hafdís Lilja Renötudóttir varði 11 skot á þeim 30 mínútum sem hún spilaði.

Slóvenar voru með undirtökin frá upphafi til enda. Það var aðeins stórleikur Hafdísar Lilju Renötudóttur í markinu sem hélt Íslandi inni í leiknum í fyrri hálfleik en Hafdís varði alls 11 skot á fyrstu 30 mínútum leiksins.

Sóknarleikurinn var stirður og það reyndist dýrt að klúðra síðustu sókn fyrri hálfleiks í stöðunni 14-10. Í stað þess að minnka muninn í þrjú mörk, sem hefði verið ásættanleg niðurstaða í hálfleik, brunuðu Slóvenar upp og skoruðu síðasta mark hálfleiksins. Staðan var því 15-10 í hálfleik.

Slóvenar bættu við forystu sína í upphafi seinni hálfleiks og fljótlega munaði 10 mörkum á liðunum í stöðunni 22-12. Íslenska liðið gerði nánast allt rangt á þessum leikkafla. Vörnin var hriplek, sóknarleikurinn áfram stirður og tæknifeilar alltof margir.

Það er í raun ekki meira um seinni hálfleik að segja. Slóvenar gáfu minni spámönnum tækifæri og Ísland náði að minnka muninn í sjö mörk. Þá kom aftur slæmur kafli og niðurstaðan svekkjandi 10 marka ósigur.

Af hverju vann Slóvenía leikinn?

Heimakonur náðu að spila miklu betri vörn en í Laugardalshöll og lokuðu t.a.m. algjörlega á Helenu Rut Örvarsdóttur sem skoraði 10 mörk í fyrri leik liðanna. Pandic var mjög sterk í markinu og varði mörg góð færi. Það verður að nýta öll dauðafæri í leik sem þessum.

Hverjar stóðu upp úr?

Hafdís Lilja Renötudóttir lék frábærlega í fyrri hálfleik. Hvers vegna hún lék ekki í eina sekúndu í þeim seinni, er mér hulin ráðgáta en hún virtist ekki vera meidd. Díana Dögg og Thea áttu ágætar innkomur á hægri vænginn.

Hvað gekk illa?

Skytturnar vinstra megin voru ekki að finna sig. Ragnheiður Júlíusdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir skoruðu samtals þrjú mörk úr þrettán skotum og munar um minna. Sóknarleikurinn var reyndar bara mjög stirðbusalegur allan leikinn hjá flestum leikmönnum.

Hvað gerist næst?

Ísland á eftir að mæta tveimur efstu liðum riðilsins, Tékkum og Dönum. Þeir leikir verða líklega meira upp á stoltið en að komast á EM í Frakklandi. Það væri a.m.k. ansi ósanngjörn krafa á íslensku stelpurnar að halda til Danmörku og sækja tvö stig í klær danska liðsins.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira