Samkvæmt nýrri eigindlegri rannsókn breskra stjórnvalda, sem reifuð er stuttlega á vef BBC, eru tíu „verstu“ afsakanirnar tíundaðar.
Bresk stjórnvöld stefna að því að konur verði þriðjungur stjórnarmanna í 350 stærstu fyrirtækjum landsins árið 2020. Enn er töluvert í land en þó hefur nokkur árangur náðst í þeim efnum á síðustu árum. Þannig fækkaði stjórnum fyrirtækja, sem aðeins voru skipaðar körlum, umtalsvert frá 2011 til 2017. Þær voru 152 talsins í upphafi tímabilsins en voru 10 í fyrra.
Að sama skapi heyrast eftirtaldar afsakanir sjaldnar þegar rætt er um ráðningu kvenna í stjórnir fyrirtækja. Að sögn breska viðskiptaráðherrans Andrew Griffiths er það þó ekki nóg, það sé fyrirlitlegt að fyrirtæki skuli enn grípa til jafn lítillækkandi afsakana. Hann bendir jafnframt á það að fyrirtæki sem stýrt er af fjölbreyttum stjórnum séu alla jafna þau sem ná bestum árangri.
Listann yfir tíu verstu afsakanirnar má sjá hér að neðan.
- „Ég held að konur passi hreinlega ekki inn í stjórnarumhverfið“
- „Það eru ekki margar konur með réttu hæfnina og reynsluna til að sitja í stjórninni - viðfangsefnin sem þar eru rædd eru gríðarlega flókin“
- „Flestar konur vilja ekki brasið og álagið sem fylgir stjórnarsetu“
- „Hluthöfum er alveg sama hvernig stjórnin er samsett - af hverju ættum við því að pæla eitthvað í samsetningunni?“
- „Aðrir stjórnarmenn myndu ekki vilja ráða konu“
- „Aðrir eru búnir að næla sér í allar góðu konurnar“
- „Við erum nú þegar með eina konu í stjórninni, þannig að við erum í góðum málum - nú er komið að einhverjum öðrum“
- „Það eru engar lausar stöður þessa stundina - ef einhver myndi losna þá myndum við íhuga að ráða konu“
- „Við þurfum að byggja okkur upp frá grunni - það eru hreinlega ekki margar reynslumiklar konur í þessum geira“
- „Ég get ekkert bara ráðið konu af því að mig langar til þess“