Fótbolti

Sauð upp úr á æfingu þýska landsliðsins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kimmich og Rudiger á æfingunni
Kimmich og Rudiger á æfingunni vísir/getty
Þýska landsliðið í fótbolta er við æfingar á Ítalíu þar sem liðið undirbýr sig fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi þar sem Þýskaland á titil að verja. Andrúmsloftið í herbúðum liðsins virðist þó ekki vera upp á það besta eftir að fréttir bárust af rifrildi leikmanna á æfingu.

ESPN greinir frá því að Joshua Kimmich, varnarmaður Bayern München, og Chelsea-maðurinn Antonio Rudiger hafi rifist á æfingu. Þeir voru nálægt því að grípa til hnefanna áður en aðstoðarþjálfarinn Miroslav Klose komst inn á milli leikmannana.

Orsökin á að vera of harkaleg tækling Rudiger á Kimmich. Miðjumaðurinn Julian Draxler, sem er á mála hjá PSG, fékk einnig olnbogaskot í andlitið frá Leroy Sane á sömu æfingu, það á þó að hafa verið óviljaverk.

Þýska liðið spilar vináttulandsleiki við Austurríki og Sádi-Arabíu á komandi dögum í undirbúningi sínum fyrir HM. Þjóðverjar hefja leik gegn Mexíkó á HM þann 17. júní á Luzhniki vellinum í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×