Skoðun

Smellu RÚV

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Nýlega voru í fréttum niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum. Þar kom fram að 75% Bandaríkjamanna gera ekki greinarmun á skoðunum og staðreyndum. Þetta eru áhugaverðar niðurstöður og sennilega ekki ástæða til að ætla að það sé miklu betra ástand hér á Íslandi.

Fjölmiðlar þurfa að gæta sín. Hversu oft sjáum við krassandi fyrirsagnir, sem hafa yfirbragð staðreynda, en eru þegar betur er að gáð einungis byggðar á skoðunum viðmælandans. Þetta er skiljanlegt hjá fjölmiðlunum, fólk smellir á áhugaverðar fyrirsagnir og staðreyndir eru gjarnan minna spennandi en upphlaup og stóryrði.

Við gerum þó mestar kröfur til Ríkisútvarpsins, enda á stofnunin að vera til fyrirmyndar í þessum efnum.

Fyrir nokkru síðan sló Ríkisútvarpið upp fyrirsögnum um styttingu náms til stúdentsprófs sem byggðar voru á skoðunum annars vegar nemanda og hins vegar forystumanns verkalýðsfélags kennara. Höfðu fyrirsagnirnar á sér yfirbragð staðreynda. Þeir sem treysta á Ríkisútvarpið eitt sem fréttaveitu höfðu þá mynd af stöðu mála að allt væri í versta hnút vegna færslu úr 4 í 3 ára kerfi.

Um daginn birtust í öðrum fjölmiðlum fréttir um niðurstöður prófa í Versló og einnig niðurstöður kannana á meðal nemenda um hvort þeir teldu vinnuálag eðlilegt. Niðurstöðurnar voru mjög ólíkar þeim „fréttum“ sem Ríkisútvarpið hafði flutt áður. Prófin komu vel út og meirihluti nemenda taldi að vinnuálag væri hæfilegt.

Getur verið að Ríkisútvarpið láti sig meiru varða umferð um vefinn sinn en að gæta að hlutverki sínu og gera staðreyndum hærra undir höfði en tilfallandi skoðunum, jafnvel þó það þýði minna spennandi fyrirsagnir og færri smelli?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×