Eigandi Fells, en jörðin er um 770 hektarar að flatarmáli, er félagið Selmúli ehf. og hóf félagið að selja lóðir úr jörðinni árið 1997. Frístundahús eru bæði fyrir ofan og neðan þjóðveg sem liggur gegnum jörðina. Ásar eru fyrir ofan þjóðveg.
Árið 2014 ræddu lóðareigendur Ása um það að setja upp öryggishlið inn í byggðina og var það samþykkt með meirihluta atkvæða. Einn eigandi vildi ekki greiða sinn hluta í kostnaði af uppsetningu hliðsins og varð af dómsmál.
Þetta er ekki eina dómsmálið sem höfðað hefur verið en eigendur Selmúla hafa mótmælt hliðinu og telja uppsetningu þess ólögmæta. Skemmdarverk hafa verið unnin á hliðinu og lögreglan rannsakað hver var þar að verki. Þá hefur málið farið fyrir kærunefnd húsamála sem úrskurðaði að uppsetning hliðsins væri lögmæt.
„Þau biðja okkur um að fá að setja upp hlið þarna upp á öryggismál að gera. Stjórn Selmúla ákvað að veita ekki leyfi fyrir því en í framhaldinu gera þau það samt,“ segir Hjalti Úrsus Árnason, stjórnarformaður Selmúla.

Umrætt hlið er þannig úr garði gert að hægt er að opna það með því að hringja í ákveðið símanúmer. Lóðareigendur hafa meðal annars borið því við að eigendur Selmúla geti fengið símanúmerið og þar með aðgang að landi sínu. Þá hafi þeir séð um að bera í veginn og halda honum við í fjölda ára.
„Fyrir innan frístundahúsin eru hátt í tvö hundruð hektarar lands sem þau eru að loka á aðgang okkar að,“ segir Hjalti og líkir málinu við það að einhver girði af hluta íbúðar annars manns en veiti honum leyfi til að fara þangað inn með þar til gerðu tæki.
„Staðsetning hliðsins er í okkar landi, það er alveg óumdeilt. Við lögðum veginn að bústöðunum svo hann er í okkar eigu. Það er alveg kýrskýrt í kaupsamningunum að við seldum lóðirnar en ekki veginn að þeim. Lögmæti hliðsins hefur ekki enn farið fyrir dómstóla en það mál er í undirbúningi,“ segir Hjalti.
Sigurður Guðmundsson, formaður Ása, vildi ekki ræða málið.