Innlent

Tveir handteknir eftir líkamsárás fyrir utan skemmtistað í Hafnarfirði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Daníel
Rétt eftir klukkan þrjú í nótt barst lögreglu tilkynning um slagsmál fyrir utan skemmtistað í Hafnarfirði. Tveir einstaklingar voru handteknir á staðnum grunaðir um líkamsárás. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru þeir nú vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan hafði oft afskipti af ökumönnum í nótt grunuðum um akstur undir áhrifum áfengis- eða fíkniefna en einn þeirra var á bifhjóli og er einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Sex ökumenn sem lögregla hafði afskipti af í nótt voru próflausir, einn hafði aldrei tekið ökupróf en hinir höfðu áður verið sviptir ökuréttindum. Tveir ökumannanna sem lögreglan stöðvaði vegna slíkra mála reyndust enn aka um á negldum dekkjum og lögreglan tók skráningarmerkin af einni bifreið sem ekki hafði farið í gegnum skoðun. 

Ökumaður var stöðvaður í Grafarvogi skömmu fyrir miðnætti grunaður um að hafa ekið á 122 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 60 km/klst. Um klukkan tvö í nótt var bifreið stöðvuð í Mosfellsbæ þar sem ökumaður er einnig grunaður um að hafa ekið á meira en tvöföldum hámarkshraða. Hann var mældur á 109 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst og var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×