Handbolti

U18 í undanúrslit eftir frábæran sigur á Þjóðverjum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur skoraði níu mörk í kvöld.
Haukur skoraði níu mörk í kvöld. mynd/instagramsíða ehf euro
Íslensku strákarnir í U18 ára landsliðinu í handbolta halda áfram að gera flotta hluti á EM í Króatíu en liðið vann 23-22 sigur á Þjóðverjum í fyrsta leik milliriðils.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Liðin héldust nánast hönd í hönd allt þangað til að Ísland breytti stöðunni í 8-8 í 12-9, sér í vil.

Strákarnir okkar leiddu svo með þremur mörkum í hálfleik, 13-10, og náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik. Þjóðverjar náðu hægt og rólega að minnka muninn og er ein mínúta var eftir munaði einu marki, 23-22.

Nær komust þeir hins vegar ekki og strákarnir okkar unnu frábæran sigur á Þjóðverjum, 23-22. Magnaður sigur strákanna og Heimir Ríkharðsson að gera góða hluti með hópinn.

Haukur Þrastarson fór enn einu sinni á kostum en han skoraði níu mörk og var markahæstur. Næstur kom Tumi Steinn Rúnarsson með fjögur mörk.

Ísland er því með fjögur stig í milliriðli 2 og eru komnir í undanúrslit. Þeir eru með fjögur stig, Þjóðverjar og Spánverjar eru með tvö og Spánverjar eru án stiga.

Ísland mætir Spáni á morgun en undanúrslitin hefjast svo á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×