Handbolti

Haukur skoraði flest mörk allra í riðlakeppni EM U-18

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson í leik með íslenska liðinu á mótinu.
Haukur Þrastarson í leik með íslenska liðinu á mótinu. Mynd/Instagram/m18ehfeuro2018
Stórleikur Hauks Þrastarsonar á móti Slóvenum í gær kom Selfyssingnum í efsta sætið yfir markahæstu leikmennina á EM 18 ára landsliða sem stendur nú yfir í Króatíu.

Enginn leikmaður skoraði fleiri mörk í riðlakeppninni en Haukur þar sem íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína á móti Svíþjóð, Póllandi og Slóveníu.

Haukur var í sjöunda sæti markalistans eftir fyrstu tvo leikina en skoraði 12 mörk á móti slóvenska liðinu og hoppaði fyrir vikið upp í efsta sætið.

Haukur skoraði 24 mörk í þremur leikjum í riðlakeppninni eða 8 mörk að meðaltali í leik. Hann er með þriggja marka forskot á Svíann Ludvig Hallbäck og Frakkann Sadou Ntanzi.

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur varið frábærlega á mótinu en hann varði 20 skot á móti Slóvenum þar af níu síðustu skot Slóvena í fyrri hálfleiknum.

Dagur Gautason var næstmarkahæstur í íslenska liðinu með 14 mörk en Arnór Snær Óskarsson hefur skorað 11 mörk. Tumi Steinn Rúnarson er síðan kominn með 9 mörk en hann hefur stjórnað leik íslenska liðsins með stakri prýði á mótinu.

Íslensku strákarnir eru í milliriðli með Þýskalandi, Spáni og Svíþjóð og er fyrsti leikur liðsins á móti Þýskalandi á morgun.


Tengdar fréttir

Annar fimm marka sigur á EM

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann það sænska með fimm mörkum í Króatíu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×