Handbolti

Aron burstaði Dag og strákarnir hans spila til úrslita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Vísir/Getty
Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í landsliði Barein eru komnir alla leið í úrslitaleikinn í handboltakeppni Asíuleikanna og hafa unnið alla sjö leiki sína í keppninni.

Barein vann ellefu marka stórsigur á Japan í undanúrslitaleiknum í dag, 31-20, og mætir Katar í úrslitaleik mótsins.

Dagur Sigurðsson þjálfar japanska landsliðið en hans strákar eiga enn möguleika á verðlaunum vinni þeir bronsleikinn á móti Suður-Kóreu.

Husain Al-Sayyad var atkvæðamestur í liði Barein en hann skoraði tíu mörk úr þrettán skotum.

Barein var með sex marka forystu í hálfleik, 15-9, og vann síðan seinni hálfleikinn með fimm mörkum, 16-11.

Barein er búið að vinna alla sjö leiki sína á mótinu en þetta eru jafnframt sjö fyrstu keppnisleikir liðsins undir stjórn Arons. Barein vann alla leiki sína í milliriðlinum á móti Íran (29-23), Suður-Kóreu (27-25) og Hong Kong (43-19). Í riðlakeppninni vann liðið Írak (30-24), Indland (32-25) og Taívan (37-21). 

Þetta verður í fyrsta sinn sem Barein spilar til úrslita í handboltakeppni Asíuleikanna en besti árangurinn var þriðja sætið á leikunum fyrir fjórum árum síðan.

Árangur Barein í handboltakeppni Asíuleikanna:

1982 - 7. sæti

1986-1998 - Tók ekki þátt

2002 - 6. sæti

2006 - 7. sæti

2010 - 6. sæti

2014 - Brons

2018 - Gull eða silfur








Fleiri fréttir

Sjá meira


×