Innlent

Sindri Þór áfram í farbanni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sindri Þór Stefánsson strauk úr fangelsinu að Sogni í apríl síðastliðnum, þar sem hann hafði sætt gæsluvarðhaldi vegna meintrar aðildar sinnar að þjófnaðinum.
Sindri Þór Stefánsson strauk úr fangelsinu að Sogni í apríl síðastliðnum, þar sem hann hafði sætt gæsluvarðhaldi vegna meintrar aðildar sinnar að þjófnaðinum. Mynd/X977
Landsréttur hefur staðfest farbann yfir Sindra Þór Stefánssyni þar til dómur fellur í máli hans en þó ekki lengur en til 26. október. Sindri er grunaður um stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum í desember og janúar síðastliðnum ásamt tveimur mönnum til viðbótar.

Sindri komst í fréttirnar í apríl síðastliðnum þegar hann var handtekinn í Amsterdam eftir að hafa yfirgefið fangelsið að Sogni án samþykkis Fangelsismálastofnunar. Hann var fyrst um sinn í gæsluvarðhaldi en hefur svo verið í farbanni undanfarna mánuði ásamt meintum samverkamönnum.

Rannsókn málanna er lokið og hefur ákæra verið gefin út á hendur Sindra Þór. Ákæran hefur þó ekki enn fengist afhent fjölmiðlum.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að talin sé hætta á því að Sindri Þór muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar fari hann frjáls ferða sinna. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum að hann sæti áfram farbanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×