Handbolti

Þórey Rósa: Næstum því leikur hjá okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Schenkerhöllinni skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. Vísir/Valli
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði þrjú mörk í eins marks tapi Íslands fyrir Svíum í vináttulandsleik í kvöld. Fyrirliðinn var svekkt að hafa ekki náð að vinna leikinn.

„Þetta var svolítill næstum því leikur hjá okkur. En ég er ánægð með að við náum að koma til baka. Við byrjum seinni hálfleikinn ekki nógu vel en náum samt að koma til baka aftur og eiga fullan séns í lokin,“ sagði Þórey Rósa í leikslok í Hafnarfirði. Svíar unnu 25-26 sigur.

„En því miður, þá tókst það ekki alveg.“

Íslenska liðið spilaði mjög vel og var tveimur mörkum yfir í hálfleik. Um miðjan seinni hálfleikinn höfðu Svíarnir komist fjórum mörkum yfir og leit út fyrir að þær sænsku myndu rúlla yfir íslensku stelpurnar en íslenska liðið sýndi mikinn karakter að vinna sig til baka inn í leikinn.

„Virkilega ánægð með stelpurnar að við náum að þétta vörnina aftur og keyra upp hraðann aftur. Það dugði því miður ekki til í dag en sem betur fer eigum við einn leik í viðbót á móti þeim og ég hlakka mikið til að mæta þeim aftur á laugardaginn.“

„Ég er ekki nógu sátt við þetta miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist. Við hefðum getað verið búnar að skora fjögur í viðbót, við vorum klaufar í fyrri hálfleik.“

„Auðvitað er ég sátt við leikinn í heild en ég hefði viljað vinna þetta í dag.“

Það er þó hellingur af jákvæðum punktum sem má taka út úr leiknum.

„Hellingur. Við spilum mjög góða vörn og náum að keyra upp hraðann, sérstaklega í fyrri hálfleik. Áræðnar í sókn, en klaufar inn á milli.“

Það stendur þó greinilega ekkert annað til boða í huga fyrirliðans en að vinna þegar liðin mætast öðru sinni á laugardag.

„Það þýðir ekkert annað,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×