Umfjöllun: Ísland - Svíþjóð 25-26 │Naumt tap fyrir Svíum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Schenkerhöllinni á Ásvöllum skrifar
Thea Imani Sturludóttir spilaði vel í dag
Thea Imani Sturludóttir spilaði vel í dag Vísir/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með einu marki fyrir Svíum í vináttulandsleik í Hafnarfirði í dag. Svíar unnu 25-26 sigur eftir að íslenska liðið leiddi leikinn í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og var yfir fyrstu tíu mínúturnar. Þá tóku þær sænsku leikinn aðeins yfir, Isabelle Gullden og Nathalie Hagman sýndu snilli sína og ekki leið á löngu þar til Svíar voru komnar 6-10 yfir.

Þá tók hins vegar við 3-0 kafli hjá íslenska liðinu og náðu þær að jafna leikinn og komast yfir. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 15-13 fyrir Íslandi. Íslenska liðið mátti vel við una og frammistaðan góð í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfeik fór aðeins að halla undan fæti og voru þær sænsku fljótar að koma sér upp forystu. Þegar um korter var eftir af leiknum voru þær sænsku komnar fjórum mörkum yfir og var útlit fyrir að leikurinn gæti farið á versta veg, íslensku stelpurnar myndu brotna og þær sænsku rúlla yfir þær.

Það gerðist hins vegar ekki. Íslenska liðið sýndi mikinn karakter í að koma til baka og var leikurinn mjög spennandi undir lokin. Íslensku stelpurnar fengu tvö tækifæri til að jafna leikinn á síðustu mínútunni en náðu ekki að nýta sér færin og eins marks tap niðurstaðan.

Þrátt fyrir svekkelsi yfir því að hafa ekki náð að klára leikinn var þó frammistaða íslenska liðsins í heildina jákvæð. Eftir erfiða undankeppni þar sem liðið náði bara í eitt stig úr sex leikjum stóðu stelpurnar vel í einu af bestu liðum heims. Svíarnir voru aðeins að leyfa minni spámönnum að spreyta sig, en þó voru lykilmenn á borð við Isabelle Gullden og Nathalie Hagman að fá margar mínútur.

Ester Óskarsdóttir stóð upp úr í íslenska liðinu fyrir afbragðs varnarleik. Hún var fremst í 5+1 vörn Íslands og leysti það hlutverk af mikilli snilli, braut varla af sér fyrr en undir lok leiksins þegar hún fékk tveggja mínútuna brottvísun.

Thea Imani Sturludóttir, Lovísa Thompson, Arna Sif Pálsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir voru allar með fjögur mörk fyrir Ísland. Hafdís Renötudóttir stóð sig ágætlega í marki Íslands en sænska markvarðarparið var þó með áberandi betri markvörslu.

Í heildina gátu áhorfendur gengið nokkuð brattir af leikvelli og það er ljóst að íslenska liðið getur vel staðið í því sænska og vel við hæfi að mæta bjartsýnn á að liðið taki jafnvel sigur í seinni leik liðanna á laugardaginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira