Bandaríska hönnunarrisinn Michael Kors hefur keypt ítalska hönnunarhúsið Gianni Versace fyrir um 240 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Þar segir að kaupverðið sé 1,83 milljarðar evra, eða 2,12 milljarðar Bandaríkjadala. Donatella Versace, sem stýrt hefur Versace fá morðinu á bróður sínum Gianni árið 1997, segir söluna mjög spennandi og muni auka veg Versace enn frekar. Hún mun áfram starfa innan fyrirtækisins.
Í frétt BBC segir að margir hafi biðlað til Donatellu að hætta við söluna þar sem þeir óttist að gæði Versace-merkisins muni nú versna.
Michael Kors starfrækir um átta hundruð verslanir í heiminum og stendur nú til að fjölga verslunum Versace úr tvö hundruð í þrjú hundruð.
Versace hefur þar til nú verið einn af síðustu stóru og sjálfstæðu hönnunarhúsunum á markaði, þar sem flest önnur hafa verið hluti af stærri samsteypu.
