Handbolti

Jafntefli hjá Ágústi og félögum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson.
Ágúst Elí Björgvinsson. Vísir/Andri Marinó
Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í sænska úrvalsdeildarliðinu Sävehof gerðu jafntefli við Guif frá Eskilstuna í kvöld.

Ágúst Elí spilaði allan leikinn í marki Sävehof, Simon Möller kom inn til að freista þess að verja tvö víti en þess að utan reyndi Íslendingurinn við alla bolta leiksins. Ágúst Elí var með 35 prósenta markvörslu, varði 12 skot af 34.

Leikurinn var mjög jafn framan af en gestirnir í Sävehof voru þó fætinum framar. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn, 15-15. Heimamenn tóku frumkvæðið í seinni hálfleik en náðu aldrei að komast lengra en tveimur mörkum á undan gestunum.

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður jöfnuðu gestirnir leikinn og var hann í járnum allt til enda. Þegar sjö sekúndur voru eftir var dæmd leiktöf á gestina í stöðunni 27-28 fyrir Sävehof. Heimamenn nýttu síðustu sókn sína vel, Mathias Tholin tók skot þegar tvær sekúndur lifðu á klukkunni, Ágúst Elí náði ekki að verja það og jafntefli niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×