Skoðun

Fertugsþroskinn

þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar
Í vor gekk ég í gegnum fullorðinsafmæli. Ég er orðin nógu lífsreynd til að vita að manneskjan verður ekki endilega vitrari við það eitt að eldast, ekki frekar en konur læra að prjóna við það eitt að verða barnshafandi, eins og ég hélt. Fertug skil ég þó sumt betur en áður.

Fertugri finnst mér ekki vandræðalegt að eiga engin önnur áhugamál en að borða. Ég skil að með því að birta myndir af mat á Instagram verður máltíð að löglegu áhugamáli. Ég veit að það næsta sem ég kemst vegan í lífinu er að panta 10 kjötbollur í IKEA en ekki 15. Mér finnst æðislegt að vakna snemma um helgar. Ég skil að andlitið er lengur að vakna en áður og þess vegna er ég þakklátari fyrir gott kaffi. Mánaðarlega mun það alltaf koma mér jafnmikið á óvart að byrja á blæðingum. Og fertug hef ég sætt mig við að ég mun úr þessu sennilega ekki ná tökum á kúnstinni að bakka bíl eða leggja.

Fertugar konur eiga dýpri vinkvennasambönd. Við skiljum hver aðra. Skilningurinn stafar ekki síst af áratugasamveru á karókíbörum. Ég hef meðtekið að verslunarferðir erlendis ganga ekki betur vegna verðlags heldur vegna þess að þá eru prómill í blóðinu. Þolinmæði fyrir leiðindum og hávaða hefur minnkað. Djúp sannfæring fyrir því að panflaututónlist ætti að varða skóggangi hefur eðlilega bara vaxið með árunum. Falleg handklæði og handsápur gleðja fertugar konur dæmalaust mikið og ég vil eyða í sjampó.

Ég skil að litlu hlutirnir eru þeir stóru. Fertug sé ég skýrar hvað ég vil og vil ekki. Og ég hef slitið sambandi við augnlækninn sem vildi taka samtalið um lesgleraugu.




Skoðun

Sjá meira


×