Talsmaður Google í Þýskalandi tilkynnti hins vegar í gær að hugmyndir fyrirtækisins um að opna miðstöðina, með öllum þeim skrifstofum, kaffihúsum og sameiginlegu vinnurýmum sem miðstöðinni hefði fylgt, væru að engu orðnar. Þess í stað myndu fermetrarnir þrjú þúsund renna til tveggja þarlendra mannúðarsamtaka.
Hópur mótmælenda hafði undanfarin tvö ár lýst opinberlega yfir óánægju sinni með fyrirætlanir tæknirisans. Ekki aðeins hafa þeir horn í síðu Google, sem mótmælendur segja að beiti ýmsum brögðum til að komast hjá skattgreiðslum og fari illa með persónuupplýsingar notenda, heldur leist þeim ekkert á þau áhrif sem koma Google myndi hafa á hverfið.
Húsnæðisverð á hraðri uppleið
Kreuzberg er á vef Guardian lýst sem „bóhema-hverfi.“ Þar þrífist ýmis konar jaðarmenning í listum jafnt sem lifnaðarháttum og óttuðust mótmælendur að sjarmi hverfisins myndi hverfa með innreið tæknirisans. Húsnæðisverð myndi að öllum líkindum hækka - og þannig reka burt efnaminni íbúa hverfsins, sem hafa jafnvel búið þar í áratugi.Nýlegar rannsóknir sýna jafnframt fram á að hvergi í heiminum hækki fasteignaverð hraðar en í Berlín. Það hækkaði um 20,5 prósent í borginni á milli áranna 2016 og 2017 - sem bliknar þó í samanburði við fasteignaverðshækkunina sem hefur átt sér stað í Kreuzberg-hverfinu einu, þar sem hækkunin var 71% á sama tímabili.
Mótmælendurnir voru því að vonum ánægðir þegar greint var frá því að Google ætlaði sér að róa á önnur mið. „Baráttan borgar sig,“ er haft eftir einum þeirra hjá Guardian. Ekki liggur þó ljóst fyrir hvort afstaða mótmælenda hafi haft úrslitaáhrif á ákvörðun Google. Talsmaður fyrirtækisins sagði þó í samtali við þarlenda fjölmiðla að Google léti ekki nokkrar óánægjuraddir stýra ákvörðunum sínum.