Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því fram í gær að fólk hefði klæðst dulargervum til að kjósa ólöglega í nýafstöðnum þingkosningum í Flórída. Enginn fótur er fyrir þessum fullyrðingum forsetans. Frestur til endurtalningar á atkvæðum í ríkinu rennur út í dag.
Endurtalningar hafa farið fram í mörgum ríkjum Bandaríkjanna til að skera úr um úrslit kosninganna 6. nóvember síðastliðinn. Repúblikanar á borð við Trump sjálfan og fyrrverandi forsetaframbjóðandann Marco Rubio hafa þó ítrekað sakað Demókrata um kosningasvindl vegna endurtalninganna.
Trump ræddi eftirköst kosninganna í viðtali við hægrisinnaða vefritið Daily Caller. Þar sagði hann að Repúblikanar ynnu ekki kosningarnar vegna „mögulegra ólöglegra atkvæða“.
„Þegar fólk sem hefur algjörlega engan rétt til að kjósa fer í röð og það fer í hringi. Stundum fer það út í bíl, setur á sig annan hatt, fer í annan bol, kemur inn og kýs aftur. Enginn tekur neitt. Þetta sem er í gangi er algjör hneisa.“
Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, sem lýsti yfir sigri gegn Demókratanum Bill Nelson í baráttunni um öldungadeildarsæti ríkisins, hefur sagt að andstæðingar sínir hafi rænt kosningunum með því að krefjast endurtalningar á atkvæðum. Ekki hefur þó verið formlega skorið úr um úrslit kosninganna þar sem munurinn var svo naumur að endurtalningar hófust.
Segir fólk klæðast dulargervum til að kjósa ólöglega

Tengdar fréttir

Bræði og óreiða í Hvíta húsinu
Síðustu dagar í Hvíta húsinu hafa einkennst af mikilli bræði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og óreiðu en von er á miklum sviptingum meðal starfsmanna forsetans.

Stefnir í slag um endurtalningu á Flórída
Munurinn á atkvæðafjölda demókrata og repúblikana á Flórída er svo lítill að telja gæti þurft atkvæði aftur.

Demókratinn Sinema hafði betur gegn McSally í Arizona
Kyrsten Sinema er fyrsti Demókratinn sem gegnir embætti öldungadeildarþingmanns Arizonaríkis frá árinu 1994.