Handbolti

Aron Rafn búinn að jafna sig á botnlangakastinu og spilar í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Rafn í leik með ÍBV síðasta vetur.
Aron Rafn í leik með ÍBV síðasta vetur. vísir/ernir
Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson er kominn á ról og byrjaður að æfa en botnlanginn var tekinn úr honum fyrir um mánuði síðan.

„Þetta er allt á réttri leið. Ég er búinn að ná tveimur æfingum og er í fyrsta skipti í hóp í kvöld síðan undir lok síðasta mánuðar,“ segir Aron Rafn, sem spilar með Hamburg í Þýskalandi, en síðasti handboltaleikur hans var með íslenska landsliðinu í Tyrklandi í lok október. Þá var hann þegar orðinn veikur.

„Það kom hola í botnlangann á mér og ég hafði verið að drepast í maganum í tvær vikur áður en ég fór til móts við landsliðið. Eftir að ég kom heim hafði ég fengið nóg af verkjum og hafði samband við lækninn í Hamburg. Hann sendir mig beint upp á spítala og segist vera viss um að það sé eitthvað að botnlanganum. Það reyndist vera rétt og botnlanginn var tekinn úr mér samdægurs. Ég er því botnlaus núna.“

Aron þakkar fyrir að botnlanginn hafi ekki sprungið á meðan hann var á flugi og að vera kominn í stand þegar stutt er í stórmót.

Það hefur gengið á ýmsu síðan hann gekk í raðir þýska liðsins síðasta sumar.

„Ég fékk heilahristing í æfingaleik gegn Vardar á undirbúningstímabilinu. Ég missti þar af leiðandi af fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Þetta hefur því verið skrítinn vetur hér í Þýskalandi,“ segir Aron Rafn en hann stefnir á að komast í íslenska landsliðið fyrir HM í janúar.

„Það vantar eðlilega aðeins upp á leikformið en það kemur fljótt. Ég stefni á að komast með landsliðinu á HM. Vonandi verð ég ekki fyrir öðrum skrítnum meiðslum sem koma í veg fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×