Viðskipti innlent

Kristilegt fjarskiptafélag Eiríks í Omega gjaldþrota

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Eiríkur Sigurbjörnsson, sjónvarpsstjóri Omega.
Eiríkur Sigurbjörnsson, sjónvarpsstjóri Omega.
Félagið Global Mission Network ehf., sem tengist rekstri kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega og er í eigu sjónvarpsstjórans Eiríks Sigurbjörnssonar, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu var félagið úrskurðað gjaldþrota 14. nóvember og skiptastjóri skipaður yfir þrotabúið.

Félagið er á skrá yfir fjarskiptafyrirtæki og hefur sömu kennitölu og gefin er fyrir Omega-sjónvarpsstöðina á Já.is.

Samkvæmt ársreikningi frá því í fyrra var starfsemi félagsins rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Félagið skilaði 2,5 milljónum króna í hagnað í fyrra, 5,5 milljónum árið áður og nam eigið fé í fyrra tæpum tólf milljónum. Félagið hafði þá 79 milljónir í tekjur.

Þrátt fyrir að hafa haldið sér réttu megin við núllið síðustu ár jukust skuldi verulega og nær fjórfölduðust í fyrra og fóru í 20,1 milljón. Þá kemur fram að fastráðnir starfsmenn félagsins hafi verið 17 talsins í fyrra auk lausráðinna verktaka. Félagið greiddi 38,5 milljónir í laun.

Á Omega hefur reglulega í gegnum tíðina verið efnt til fjáröflunarátaks þar sem biðlað var til áhorfenda að styrkja þessa kristilegu sjónvarpsstöð sem stofnuð var 1992. Stöðin hefur sent út óslitið síðan en óljóst er hvort og þá hvaða áhrif gjaldþrotið mun hafa. Stöðin er enn í loftinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fullyrða forsvarsmenn stöðvarinnar að reksturinn sé í öðru félagi. Óljóst sé í hverju rekstur Global Mission Network ehf. fólst.

Ekki náðist í Eirík Sigurbjörnsson, sjónvarpsstjóra Omega, vegna málsins í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×