Handbolti

Stórt tap og Ísland í vondum málum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arna Sif Pálsdótti var markahæst í íslenska liðinu í dag.
Arna Sif Pálsdótti var markahæst í íslenska liðinu í dag. vísir/ernir
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta er í erfiðum málum í forkeppni HM í handbolta 2019 eftir stórt tap fyrir Makedóníu í öðrum leik liðsins í riðlinum.

Ljóst var fyrir leikinn að hann yrði líklega úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins, eina sætið sem gefur öruggt sæti í umspilinu um sæti á HM að ári.

Íslenska liðið byrjaði ágætlega og var staðan 4-3 Íslandi í vil snemma leiks. Þá tóku Makedónar hins vegar völdin á vellinum, skoruðu fimm mörk í röð og komust yfir. Íslenska liðið náði einu marki áður en Makedónía skoraði önnur þrjú mörk, svo í heildina tók Makedónía 8-1 kafla.

Fyrri hálfleikurinn var heilt yfir mjög slæmur hjá íslenska liðinu, þá sérstaklega sóknarleikurinn. Staðan í leikhléi var 10-16 og ljóst að íslenska liðið þurfti að gera miklu betur í seinni hálfleiknum.

Það gekk hins vegar ekki. Nokkuð jafnt var með liðunum framan af í seinni hálfleik en heimakonur náðu þó að auka forskot sitt og þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn orðinn níu mörk.

Þegar upp var staðið endaði leikurinn með 21-29 tapi Íslands. Ekki nógu góð frammistaða hjá liðinu sem þarf nú að treysta á að Tyrkir vinni Makedóníu, úrslit sem eru frekar ólíkleg, til þess að eiga möguleika á að enda í fyrsta sæti riðilsins.

Arna Sif Pálsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir drógu vagninn fyrir Ísland í sóknarleiknum með fimm mörk hvor. Fjórir leikmenn komu næstir með tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×