Handbolti

Ómar Ingi öflugur í bikarsigri Álaborgar │ Stórsigur hjá West Wien

Anton Ingi Leifsson skrifar
Álaborg er komið í undanúrslitin og þar spilaði Ómar Ingi stóra rullu.
Álaborg er komið í undanúrslitin og þar spilaði Ómar Ingi stóra rullu. vísir/getty
Álaborg er komið í undanúrslit danska bikarsins eftir öruggan sigur á Mors-Thy, 32-25, í átta liða úrslitunum í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Í hálfleik leiddi Álaborg með einu marki, 13-12, en þeir keyrðu yfir heimamenn í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur.

Einu sinni sem oftar átti Ómar Ingi Magnússon frábæran leik. Hann skoraði úr öllum fimm skotum sínum og lagði þar að auki upp sjö mörk. Janus Daði Smárason lagði upp eitt mark.

Vignir Svavarsson og félagar eru úr leik eftir tap gegn Árósum á heimavelli í kvöld, 29-25, eftir að staðan hafi verið jöfn í hálfleik, 14-14. Vignir skoraði eitt mark úr einu skoti.

West Wien er áfram í fjórða sæti austurrísku úrvalsdeildarinnar eftir stórsigur, 36-22, á HC Linz á útivelli í kvöld.

Í raun var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda því í hálfleik munaði níu mörkum á liðunum, 20-11.

Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins en hann skoraði sjö mörk. Guðmundur Hólmar Helgason gerði tvö mörk eins og Ólafur Bjarki Ragnarsson.

Hannes Jón Jónsson er þjálfari West Wien sem er í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig en toppliðið Krems er á toppnum með 25 stig.

Ísak Rafnsson og félagar í Schwaz eru áfram í fimmta sætinu eftir jafntefli, 26-26, við Graz sem er í öðru sæti deildarinnar. Ísak komst ekki á blað í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×