Innlent

Kristjana tekur við af Birni Braga sem spyrill í Gettu betur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kristjana Arnarsdóttir er spennt fyrir nýju hlutverki.
Kristjana Arnarsdóttir er spennt fyrir nýju hlutverki.
Kristjana Arnarsdóttir er nýr spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur. Tilkynnt var um þetta í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Kristjana tekur við af Birni Braga Arnarssyni sem sagði sig frá starfinu í haust.

Kristjana hefur starfað um nokkurt skeið sem íþróttafréttakona hjá RÚV og er þannig þaulvön því að koma fram á sjónvarpsskjánum. Hún segist spennt fyrir nýju hlutverki.

„Þetta er allt annað hlutverk en ég er gríðarlega spennt fyrir þessu því ég var sjálf virkur menntskælingur, án þess þó að hafa verið í Gettu betur. Það var kannski annar tími hvað varðar kynjahlutföllin í liðunum, þannig að það var kannski ekki á borðinu hjá mér að fara í liðið.“

Ingileif Friðriksdóttir.
Þá er Ingileif Friðriksdóttir nýr dómari og spurningahöfundur, og gengur því til liðs við Vilhelm Anton Jónsson sem gegnt hefur starfinu síðustu misseri. Ingileif er einnig innanbúðarkona hjá RÚV og framleiddi og stýrði m.a. þáttunum Hinseginleikanum.

Björn Bragi sagði sig frá starfis spyrils í kjölfar þess að myndskeið af honum fór í mikla dreifingu þar sem sést hvar hann er að þukla á ungri stúlku. Hann bað stúlkuna afsökunar í kjölfarið og tók hún afsökunarbeiðni hans gilda.

Dregið verður í fyrstu umferð Gettu betur í dag en keppnin hefst í janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×