Kanadíska flugfélagið mun einblína á innanlandsflug og styttri milllandaflug, þá einna helst til Bandaríkjanna. Auk Indigo hyggjast kanadískir sjóðir fjárfesta í hinu endurskipulagða flugfélagi. Tim Morgan, forstjóri Enerjet, hefur gefið það út að hið nýja ofurlággjaldaflugfélag muni þó ekki fljúga undir merkjum Enerjet, verið sé að leita að nafni sem hæfir hinu nýja félagi.
Enerjet hefur skilað tveimur Boeing 737-700s flugvélum sem félagið hafði á leigu. Ekki er búið gefa út hvernig vélar hið nýja félag mun reiða sig á en ætla má að þær verði af gerðinni Airbus A320neo. Eins og frægt er orðið pantaði Indigo Partners rúmlega 400 slíkar vélar í fyrra.

Fyrrnefndur Morgan er hæstánægður með aðkomu Indigo Partners og kanadísku sjóðanna. Hann lýsir fjárfestunum sem „einhverjum þeim allra bestu sem ég hefði getað fengið til liðs við okkur,“ þegar kemur að endurskipulagningu flugfélagsins. „Þau munu skipta sér af rekstrinum (e. hands-on partners). Þetta er fólk sem kann á samkeppni,“ segir Morgan.
Aðspurður um rekstrarlíkan nýja félagsins segir Morgan að það verði ekki boðið upp á neinar nýjungar - „þetta eru ekki geimvísindi. Við munum gera það sama og önnur ofurlággjaldaflugfélög hafa gert með góðum árangri.“
Haft er eftir Íslandsvininum Bill Franke í tilkynningu sem gefin var út vegna fjárfestingarinnar að Indigo hafi mikla trú á því að hægt verði að stórbæta samkeppnisstöðu kanadíska flugiðnaðarins með innkomu öflugs ofurlággjaldaflugfélags. „Markmið okkar er að vera komin inn á markaðinn um þetta leyti á næsta ári og geta þannig auðveldað Kanadamönnum að heimsækja vini og ættingja yfir jólahátíðina, og um alla tíð,“ er haft eftir Franke.
Ofurlággjaldaflugfélag eiga sér ekkert sérstaklega langa sögu í Kanada ef marka má umfjöllun erlendra miðla af endurskipulagningu Enerjet. Dótturfélag WestJet, Swoop, er sagt vera það fyrsta sem fellur undir þá skilgreiningu en félagið hóf sig til flugs fyrr á þessu ári. Þá byrjaði ofurlággjaldaflugfélagið Flair Air að fljúga til Bandaríkjanna frá Kanada síðastliðið haust.