Fótbolti

Dortmund með sjö stiga forskot eftir tap Bayern

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Reus og félagar eru í góðum málum á toppi þýsku deildarinnar
Reus og félagar eru í góðum málum á toppi þýsku deildarinnar vísir/getty
Bayern München tapaði nokkuð óvænt fyrir Bayer Leverkusen í þýsku Bundesligunni í dag. Borussia Dortmund náði þó ekki að nýta sér mistök Bayern til fulls, liðið gerði jafntefli við Eintracht Frankfurt.

Dortmund var með sex stiga forskot á Bayern á toppi deildarinnar fyrir tuttugustu umferðina. Bayern sótti lið Leverkusen heim í dag, en Leverkusen var um miðja deild fyrir leikinn.

Leon Goretzka kom gestunum frá München yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en heimamenn tóku öll völd í seinni hálfleik.

Leon Bailey og Kevin Volland skoruðu fyrir Leverkusen á tíu mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Varamaðurinn Lucas Alario gulltryggði svo sigur Leverkusen með marki undir lok venjulegs leiktíma og 3-1 urðu lokatölur.

Dortmund sótti Frankfurt heim á sama tíma en náði ekki að nýta sér tap Bayern og fara í níu stiga forskot því Luka Jovic jafnaði leikinn eftir að Marco Reus hafði komið Dortmund yfir í fyrri hálfleik.

Lokatölur í Frankfurt 1-1 og Dortmund fer í 49 stig á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×