Árið 2015 undirrituðu Ísland og Evrópusambandið þrjá samninga um viðbótarfríðindi með landbúnaðarvörur. Samningarnir tóku gildi í maí í fyrra en þeir verða innleiddir í þrepum til ársins 2021.
Hlutverk starfshópsins, sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var að finna leiðir til að koma ávinningnum af þeim takmörkuðu gæðum, sem aukning tollkvótanna er, í vasa neytenda. Í skýrslunni segir að almenningur myndi njóta mests efnahagslegs ávinnings ef tollkvótunum yrði úthlutað beint til landsmanna í formi hlutdeildarskírteinis. Það er hver og einn einstaklingur, yfir tilteknum aldri, fengi slíkan kvóta í sinn hlut sem hann gæti síðan framselt á markaði. Það fyrirkomulag væri þó háð ýmsum göllum enda ekki víst að allir myndu nýta sinn kvóta.

Sökum þessa lagði meirihluti hópsins, fjórir fulltrúar af fimm, til að hollenska leiðin væri farin. Útboðið á kvótunum færi rafrænt fram á sérstakri síðu og hefðu áhugasamir tvær vikur til að skrá sig. Verði heildartilboð jöfn eða lægri en magn í boði fá allir þátttakendur það sem eftir var sóst. Lægsta tilboð ræður verði allra.
„Það er alveg ljóst að þessar tillögur fela í sér töluvert tekjutap fyrir ríkissjóð enda má ekki líta á tollkvóta ESB sem sérstakan tekjustofn fyrir ríkið. Tilgangur þeirra er að tryggja að landbúnaðarafurðir komist hingað til lands með sem minnstum kostnaði fyrir neytendur. Hollenska leiðin tryggir það,“ segir Óli Björn.
Brynhildur Pétursdóttir, fulltrúi Neytendasamtakanna, skilaði séráliti og taldi heppilegast að varpa hlutkesti um helming kvótanna en úthluta helmingi á grundvelli reynslu.
„Næsta skref er að vinna áfram með þessar niðurstöður hér í ráðuneytinu og vonandi kynna mögulegar breytingar á núgildandi regluverki síðar á þessu ári,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.