Enski boltinn

Ramsey búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Juve

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ramsey í leik með Arsenal.
Ramsey í leik með Arsenal. vísir/getty
Aaron Ramsey er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Ítalíumeistara Juventus. Fjölmiðlar á Englandi greindu frá þessu nú síðdegis og Juventus staðfesti svo komu miðjumannsins í kvöld.

Ramsey mun fara til Ítalíu í sumar þegar félagsskiptaglugginn opnar á ný og samningur hans við Arsenal rennur út. Því þarf Juventus ekki að borga krónu fyrir að fá Walesverjann.

Juventus mun þó ekki spara neitt á því að bæta Ramsey í hópinn, því samkvæmt fréttum Sky Sports og BBC mun hann fá 400 þúsund pund á viku í laun sem gerir hann að launahæsta breska leikmanni sögunnar.

Það eru hins vegar ekki allir sammála um þetta því Gabriele Marcotti hjá ESPN segir Ramsey ekki fá meira en 250 þúsund pund á viku.







Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Juventus nær sér í leikmenn úr stærstu liðunum frítt, Andrea Pirlo, Dani Alves og Paul Pogba eru dæmi um leikmenn sem komu til Ítalíu undir svipuðum kringumstæðum.

Ramsey hefur verið síðustu 11 ár hjá Arsenal en viðræður um framlengingu við Skytturnar runnu út í sandinn fyrr í vetur. Hann var einnig í viðræðum við Barcelona og Paris Saint-Germain en valdi að fara til Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×