Tvö rauð spjöld í toppslagnum á Ítalíu og Juventus með 16 stiga forystu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Emre Can fagnar marki sínu
Emre Can fagnar marki sínu vísir/getty
Juventus heimsótti Napoli í uppgjöri toppliðanna í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en Juventus gat stigið stórt skref í átt að enn einum meistaratitlinum.

Á 25.mínútu dró til tíðinda en Alex Meret, markvörður Napoli, braut þá á Cristiano Ronaldo og fékk að líta rauða spjaldið. David Ospina kom í markið í stað Meret og hans fyrsta verk var að hirða boltann úr netinu þar sem Miralem Pjanic skoraði beint úr aukaspyrnunni sem dæmd hafði verið á Meret.

Einum manni fleiri tókst meisturunum að tvöfalda forystuna en það gerðist á 39.mínútu þegar Emre Can skoraði. Staðan í leikhléi 0-2.

Hagur heimamanna vænkaðist í upphafi síðari hálfleiks þegar Miralem Pjanic fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þar með orðið jafnt í liðum.

Napoli sóttu mun meira í síðari hálfleiknum og Jose Callejon minnkaði muninn á 61.mínútu. Lorenzo Insigne hefði svo getað jafnað metin á 84.mínútu en hann klúðraði vítaspyrnu sem dæmd hafi verið á Alex Sandro.

Juventus því komið með sextán stiga forystu á toppi deildarinnar en Napoli er svo átta stigum á undan AC Milan sem er í 3.sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira