Fótbolti

Lucas Hernandez orðinn næst dýrasti varnarmaður sögunnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lucas Hernandez spilaði alla leiki Frakklands á HM.
Lucas Hernandez spilaði alla leiki Frakklands á HM. vísir/getty
Þýska stórveldið Bayern München er búið að ganga frá kaupum á franska varnarmanninum Lucasi Hernandez frá Atlético Madrid en þeir þýsku borga metfé fyrir leikmanninn eða 80 milljónir evra.

Aldrei áður hefur leikmaður verið keyptur fyrir svo mikið fé í þýskalandi en þessi 23 ára gamli miðvörður sem einnig getur leikið sem vinstri bakvörður varð heimsmeistari með Frakklandi síðasta sumar.

Við læknisskoðun á Hernandez kom í ljós að hann var með skaddað liðband í hægra hné og þarf hann að fara rakleiðis í aðgerð í dag en það kom ekki í veg fyrir að þýsku meistararnir myndu ganga frá kaupunum.

„Þetta er rosalega stór dagur fyrir fótboltaferilinn minn. Bayern München er eitt stærsta fótboltalið heims,“ segir Hernandez sem hefur spilað 67 leiki í La Liga með Atlético og unnið bæði Evrópudeildina og Stórbikar Evrópu.

Kaupin gera Hernandez að næst dýrasta varnarmanni sögunnar á eftir Virgil van Dijk hjá Liverpool sem kostaði 84,5 milljónr evra. Þá er hann langdýrasti leikmaðurinn í sögu Bayern en hann kostar næstum tvöfalt meira en Corentin Tolisso sem félagið keypti frá Lyon fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×