

Tilnefningarnefndir í hlutafélögum
Óhætt er að segja að margt er óljóst í störfum þeirra og hvernig þeim hefur verið veitt umboð frá hluthöfum. Ekki er ofsagt þegar fullyrt er að mikið ósamræmi ráði við framkvæmdina. Gögn um tilnefningarnefndir í skráðum félögum er best að sækja á vef Kauphallarinnar eða viðkomandi félaga. Verklagið við þær er þannig að tilnefningarnefnd sem valin hefur verið, oftast skipuð þremur nefndarmönnum, undirbýr næsta aðalfund með því að leggjast í talsverða vinnu við að greina stjórnarhætti, kalla eftir framboðum og eftir að hafa metið frambjóðendur leggur fram lista yfir þá sem lagðir eru til sem ráðgefandi upplegg fyrir aðalfund. Þessar skýrslur eru ítarlegar og erfitt að verjast þeirri hugsun að áherslan sé á umbúðirnar. Það er vandséð að tilnefningarnefndir verði breytingaafl við skipun á stjórnum. Einnig er í mörgum félögum gert ráð fyrir aðkomu tilnefningarnefnda þegar stjórnarkjör fer fram á hluthafafundum, þ.e. öðrum en aðalfundum.
Verði það ofan á að tilnefningarnefndir festist í sessi blasir við að gott væri að samræma umgjörð þeirra eftir því sem við á. Markmið tilnefningarnefnda er að tryggja gagnsætt og faglegt ferli við tilnefningu stjórnarmanna og styðja við upplýsta ákvarðanatöku hluthafa við stjórnarkjör eins og því er lýst. Hröð þróun í átt til tilnefningarnefnda hérlendis má örugglega rekja bæði til skráningar félaganna í Kauphöllinni og erlendra fjárfesta í þessum félögum. Líklega er tilvist þeirra því fremur viðbrögð við kröfum annarra en að þörfin sé talin brýn innan fyrirtækjanna. Í stærri fyrirtækjum erlendis eru tilnefningarnefndir starfandi þannig að spurningin er því frekar hvort þeirra er í raun þörf á okkar litla markaði. Tilnefningarnefndir mynda vissa fjarlægð á milli hluthafa og stjórna sem er ekki æskileg.
Hluthafar velja stjórnarmenn í fyrirtækjum til að gæta hagsmuna sinna enda gegna stjórnir mikilvægu hlutverki í gangverki fyrirtækjanna. Í aðdraganda aðalfunda þinga tilnefningarnefndirnar og gefa síðan gjarnan út skýrslu um störf sín og tillögu um þá sem skipa eigi sæti í næstu stjórn.
Hingað til hefur gengið ágætlega að manna stjórnir hérlendis. Leitað er að reynslu, sérþekkingu og almennu hæfi frambjóðanda samhliða því að gætt er jafnréttissjónarmiða. Í flestum stærstu fyrirtækjum landsins ráða lífeyrissjóðir landsmanna orðið miklu og tilnefna fólk til stjórnarsetu. Þeir hafa þannig mikið um það að segja hvernig velst í stjórnir. Innan stærstu lífeyrissjóðanna eru í reynd valnefndir sem hafa það verkefni að finna gott fólk í stjórn og aðrir hluthafar hafa sama leiðarljós – að fyrirtækinu vegni vel. Stjórnir skipta síðan með sér verkum.
Í þessu ljósi má spyrja: Bæta tilnefningarnefndir mannval í stjórnum? Tryggja þær meiri endurnýjun í stjórnum? Hvernig eru nefndirnar sjálfar mannaðar? Hvert sækja þær umboð sitt? Hvaða verkefni er þeim ætlað? Hvernig er þeim fyrir komið í skipulagi eða samþykktum viðkomandi félags? Efla þær eða minnka lýðræði við stjórnarkjör? Hver er kostnaðurinn af þeim?
Hvað framkvæmdina áhrærir þá er margt sem er þvers og kruss við núverandi stöðu. Í stuttri grein er ekki hægt að nefna nema nokkur atriði og stikla þar á stóru. Hvert sækja tilnefningarnefndir umboð sitt? Þær ættu að sækja það í samþykktir/lög félagsins þar sem ljóst er hvaða tilgangi þeim er ætlað að þjóna og starfsháttum lýst. Við lauslega athugun eru fá félög með tilnefningarnefndir í samþykktum, heldur ýmist þannig að gert sé ráð fyrir því að þær starfi sem undirnefnd stjórnar eða heyri beint undir stjórn. Við þær aðstæður að tilnefningarnefndir starfi sem undirnefndir stjórnar má halda því fram að hætta sé á að nefndin verði verkfæri stjórnar félagsins.
Í flestum nefndanna eru tveir óháðir nefndarmenn kjörnir á aðalfundi en einn tilnefndur af stjórn. Sjá má að Eik fasteignafélag tekur forystu á sínum aðalfundi með því að gera tillögu um breytingar á samþykktum í þá veru að stjórnarmenn sitji ekki í tilnefningarnefndum. Þetta virðist nokkuð augljóst þegar horft er til þess að stjórnarmaðurinn í nefndinni er væntanlega að mæla með sjálfum sér til framboðs sé hann í endurkjöri. Þessu ætti að verða breytt í öðrum félögum, þótt vissulega megi færa rök fyrir því að stjórnarmaðurinn hafi betri innsýn í störf viðkomandi stjórnar. Ljóst er að þegar tilnefningarnefnd hefur stillt upp „lista“ af frambjóðendum þá eiga aðrir frambjóðendur erfiðara uppdráttar, þegar búið er að gefa línuna. Í mörgum félaganna núna eru lagðar til óbreyttar stjórnir, nema að losni sæti. Erum við með tilnefningarnefndum að þrengja að hluthafalýðræðinu og milliliðalausu sambandi hluthafa við stjórn?
Að síðustu er vert að vekja athygli á þeim kostnaði sem fylgir stjórnum og þeim nefndum sem þeim fylgja. Hann virðist aukast hratt. Festi auglýsti nokkuð nákvæmlega hvað lagt er til að greiða stjórnarmönnum og fulltrúum í nokkrum nefndum fyrir nefndarvinnu, þar á meðal í tilnefningarnefnd. Samkvæmt tillögunni slagar stjórnartengd fjárhæðin í 50 milljónir á ári hjá því félagi.
Höfundur er hagfræðingur og fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
Skoðun

Helför Palestínumanna í beinni útsendingu – viljum við vera samsek?
Ólafur Ingólfsson skrifar

Byggð í Norðvesturkjördæmi: lífæð framtíðar Íslands
Ragnar Rögnvaldsson skrifar

Hverju hef ég stjórn á?
Álfheiður Ingólfsdóttir skrifar

Metnaður eða metnaðarleysi?
Sumarrós Sigurðardóttir skrifar

„Þetta er allt í vinnslu“
María Pétursdóttir skrifar

Arðsemi og tilgangur - eitt útilokar ekki annað
Elva Rakel Jónsdóttir,Erla Ósk Ásgeirsdottir skrifar

Iðnaðarstefna – stökkpallur inn í næsta hagvaxtarskeið
Sigurður Hannesson skrifar

Hættum að bregðast íslensku hryssunni
Rósa Líf Darradóttir skrifar

Börnin bíða meðan lausnin stendur auð
Álfhildur Leifsdóttir skrifar

Áður en það verður of seint
María Rut Kristinsdóttir skrifar

Lygin lekur niður á hökuna
Jón Daníelsson skrifar

Líflínan
Ingibjörg Isaksen skrifar

Ríkisfyrirtæki sem virðir ekki æðsta valdið
Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Neikvæðni í garð sjávarútvegs á Íslandi – orsakir og afleiðingar
Kristín Þórarinsdóttir skrifar

Við erum hafið
Guillaume Bazard skrifar

Deja Vu
Sverrir Agnarsson skrifar

Mun mannkynið lifa af gervigreindina?
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Ríkisstofnun rassskellt
Björn Ólafsson skrifar

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – margþættur ávinningur
Ludvig Guðmundsson,Guðrún E. Gunnarsdóttir skrifar

Orkuöflun á eyjaklösum - Vestmannaeyjar og Orkneyjar
Gísli Stefánsson skrifar

Hugrekki getur af sér hugrekki
Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

D-vítamín mín besta forvörn
Auður Elisabet Jóhannsdóttir skrifar

Húmanisminn í kærleikanum og kærleikurinn í húmanismanum
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir skrifar

Helför gyðinga gegn íbúum Palestínu
Birgir Dýrfjörð skrifar

Leiðréttingin leiðrétt
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson skrifar

Hvað skiptir okkur mestu máli?
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar

Mikilvægt skref til sáttar
Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Staðið með þjóðinni
Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Við vitum alveg upphafið
Guðný Níelsen skrifar

Betri nýting á tíma og fjármunum Reykjavíkurborgar 3/3
Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar