Körfubolti

Tveir spennuleikir og eitt burst: Ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR mætir nágrönnum sínum í Val og Stjarnan mætir Keflavík í úrslitakeppninni.
KR mætir nágrönnum sínum í Val og Stjarnan mætir Keflavík í úrslitakeppninni. vísir/bára
Lokaumferðin í Dominos-deild kvenna fór fram í kvöld og nú er ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni en fjögur efstu liðin taka þátt í úrslitakeppninni.

Keflavík lagði KR í DHL-höllinni í spennutrylli, 97-95, en þrátt fyrir tapið hélt KR fjórða og síðasta sætinu í úrslitakeppninni því á sama tíma tapaði Snæfell fyrir Val á Hlíðarenda. Nýliðarnir því komnir í úrslitakeppnina.

Sara Rún Hinriksdóttir var stórkostleg í liði Keflavíkur. Hún skoraði 30 og tók þar að auki sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Kiana Johnson skoraði 29 stig fyrir KR, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Stjarnan marði fallið lið Breiðabliks í Kópavogi í kvöld, 86-82, eftir að staðan hafi verið jöfn 81-81 er innan við ein mínúta var eftir.

Stjarnan gulltryggði því þriðja sætið í deildinni og mætir Keflavík í undanúrslitunum en Breiðablik spilar ekki í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.

Danielle Victoria Rodriguez skoraði 29 stig fyrir Stjörnuna og hún gaf þar að auki sjö stoðsendingar og tók sjö fráköst. Í liði Blika sem kveður nú deildina var það Sanja Orazovic sem var stigahæst með átján stig.

Haukar burstuðu svo Skallagrím, 104-59, en úrslitin réðust nánast strax í fyrsta leikhluta. Haukarnir skoruðu 34 stig í fyrsta leikhlutanum en gestirnir úr Borgarnesi einungis níu. Eftirleikurinn auðveldur.

Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 22 stig og var stigahæst í liði Hauka en hún bætti við fimm stoðsendingum og fimm fráköstum. Rósa Björk Pétursdóttir bætti við nítján stigum og sex fráköstum en stigahæst í liði Skallagríms var Ines Kerin stigahæst með tuttugu stig.

Lokaniðurstaðan í deildinni:

Valur 44 stig

Keflavík 42 stig

Stjarnan 36 stig

KR 32 stig

Snæfell 32 stig

Haukar 18 stig

Skallagrímur 12 stig

Breiðablik 8 stig

Úrslitakeppnin:

Valur - KR

Keflavík - Stjarnan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×