Boeing er sagt vera búið að leggja lokahönd á uppfærslu á hugbúnaðaruppfærslu á flugstjórnarkerfi 737 MAX flugvélanna. Þetta hefur AFP eftir heimildarmönnum innan fluggeirans í Bandaríkjunum.
Uppfærslan á við MCAS-flugstjórnarkerfið sem er ætlað að koma í veg fyrir að flugvélar ofrísi. Grunur leikur á að kerfið hafi leikið lykilhlutverk í tveimur mannskæðum flugslysum, í Indónesíu á síðasta ári og Eþíópíu fyrr í mánuðinum.
Boeing hefur unnið hörðum höndum að uppfærslunni að undanförnu en búið er að setja flugbann á 737 MAX vélar fyrirtækisins víða um heim vegna flugslysanna. Flugbannið hefur haft töluverð áhrif á starfsemi flugfélaga víða um heim, þar með talið hér á landi en Icelandair rekur þrjár vélar af gerðinni 737 MAX og eru fleiri slíkar væntanlegar í flugflota félagsins.
Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum eru sögð munu fá að að leggja mat á uppfærsluna í vikunni og að bandarísk flugfélög muni fá kynningu á uppfærslunni á næstunni. Flugmálastjórn Bandaríkjanna hafði gefið Boeing frest fram í apríl til þess að klára uppfærsluna.
737 MAX uppfærslan sögð tilbúin

Tengdar fréttir

WOW-vélarnar reynast vel í kyrrsetningarkrísu Air Canada
Forsvarsmenn kanadíska flugfélagsins hafa tekið ákvörðun um að kyrrsetja Boeing 737 MAX 8-þotur sínar til 1. júlí hið minnsta.

Öryggisbúnaðurinn verður partur af vélum Icelandair í framtíðinni
Icelandair keypti ekki tiltekinn öryggisbúnað í Boeing 737 MAX vélar sínar sem nú hafa verið kyrrsettar.

Boeing ætlar að hætta að rukka fyrir viðbótaröryggi
Mælar sem hefðu mögulega getað afstýrt tveimur mannskæðum flugslysum voru ekki staðalbúnaður í Boeing-vélum.