Fótbolti

Tvö rauð spjöld þegar Dortmund fór langt með að kasta frá sér titlinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Agaleysið algjört hjá Dortmund í dag
Agaleysið algjört hjá Dortmund í dag vísir/getty
Titilvonir Borussia Dortmund eru nánast að engu orðnar eftir hræðileg úrslit gegn Schalke á heimavelli í dag en leiknum lauk með 2-4 sigri gestanna þar sem Dortmund endaði leikinn með aðeins níu leikmenn.

Mario Götze kom Dortmund yfir snemma leiks en Schalke fór með forystu í leikhlé, 1-2, með mörkum Daniel Caliguri af vítapunktinum og Salif Sane.

Eftir rúmlega klukkutíma leik tóku heimamenn upp á því að kasta frá sér leiknum á glórulausan hátt. Fyrirliði liðsins, Marco Reus, lét þá reka sig útaf með beint rautt spjald fyrir mjög grófa tæklingu. Caliguri skoraði stórglæsilegt mark úr aukaspyrnunni og staðan orðin 1-3.

Til að bæta gráu ofan á svart fór Marius Wolf að fordæmi fyrirliða síns og fékk beint rautt spjald fyrir gróft brot á 65.mínútu.

Tveimur mönnum færri tókst Axel Witsel þó að minnka muninn í 2-3 en Breel Embolo svaraði um hæl og tryggði Schalke 2-4 sigur.

Bayern Munchen getur náð fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar á morgun þegar Bæjarar heimsækja Nurnberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×