Handbolti

Alfreð getur náð í titil í síðasta Evrópuleiknum með Kiel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið.
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið. vísir/getty
Alfreð Gíslason stýrir Kiel í síðasta sinn í Evrópuleik þegar liðið mætir Füchse Berlin í úrslitaleik EHF-bikarsins í kvöld. Leikið er í Sparkassen-Arena í Kiel.

Strákarnir hans Alfreðs tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Team Tvis Holstebro, 26-32, í gær.Füchse Berlin vann Porto, 24-20, í hinum undanúrslitaleiknum. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Berlínarrefina.

Sem kunnugt er hættir Alfreð sem þjálfari Kiel í sumar. Hann hefur verið hjá félaginu síðan 2008.

Kiel varð þýskur bikarmeistari í síðasta mánuði og á enn möguleika á að vinna þýska meistaratitilinn. Alfreð getur því kvatt Kiel með þremur titlum. Kiel er tveimur stigum á eftir Flensburg þegar þrjár umferðir eru eftir af þýsku úrvalsdeildinni.

Kiel hefur þrisvar sinnum unnið EHF-bikarinn; 1998, 2002 og 2004. Füchse Berlin vann keppnina í fyrra og 2015 undir stjórn Dags Sigurðssonar.

Alfreð hefur áður unnið EHF-bikarinn en hann stýrði Magdeburg til sigurs í keppninni 2001. Ólafur Stefánsson lék með Magdeburg á þeim tíma. Ári síðar vann liðið Meistaradeild Evrópu undir stjórn Alfreðs.

Akureyringurinn hefur alls unnið fjóra Evróputitla sem þjálfari og getur bætt þeim fimmta við í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×