Bandarískir neytendur segja lágt miðaverð enn ráða mestu við val og kaup á flugmiðum. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Ipsos sem framkvæmd var fyrir Reuters. Könnunin bendir til að tvö mannskæð flugslys, þar sem Boeing-vélar af gerðinni 737 MAX komu við sögu, hafi haft lítil áhrif á hegðun neytenda.
Í frétt Reuters segir að könnunnin sýni að einungis um helmingur fullorðinna Bandaríkjamanna þekki til flugslysanna í Indónesíu í október á síðasta ári og Eþíópíu í mars síðastliðinn þar sem alls 346 manns fórust. 43 prósent aðspurðra gátu nefnt hvaða tegund flugvélar kom þar við sögu.
Í könnuninni kom fram að þrjú prósent Bandaríkjamanna sagði flugvélaframleiðandi eða tegund mikilvægasta þáttinn við kaup á flugmiðum. 57 prósent aðspurðra sögðu miðaverð ráða mestu, fjórtán prósent flugfélag, og níu prósent fjöldi millilendinga.
Boeing-vélar af gerðinni 737 MAX voru allar kyrrsettar í kjölfar flugslyssins í Eþíópíu í mars. Eftir flugslysin beindust böndin að sjálfstýringarhugbúnaði vélanna þar sem vísbendingar voru um að hugbúnaður sem á að koma í veg fyrir ofris hafi stýrt flugvélunum niður á við þannig að þær hröpuðu. Boeing hefur nú sagst hafa uppfært búnaðinn þannig að vélarnar séu öruggar.
