Framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, hagnaðist um 339 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman um 28 milljónir króna frá fyrra ári, samkvæmt nýjum ársreikningi sjóðsins. Sjóðurinn greiddi út 400 milljónir króna á árinu.
Icelandic Tourism Fund fór í lok síðasta árs með 94 prósenta hlut í félaginu Into the Glacier, sem býður upp á daglegar ferðir inn í ísgöngin í Langjökli, og er hluturinn metinn á 1.387 milljónir króna í bókum sjóðsins.
Ísgöngin, sem eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi, eru stærsta einstaka eign sjóðsins en alls átti sjóðurinn, sem er í eigu Icelandair Group, Landsbankans og sjö lífeyrissjóða, eignir upp á tæplega fjóra milljarða króna í lok síðasta árs.
Næststærsta eign framtakssjóðsins er 34 prósenta hlutur í ST Holding, eignarhaldsfélagi Special Tours, en eignarhluturinn er metinn á 637 milljónir í ársreikningi sjóðsins.
Sem kunnugt er samþykkti Samkeppniseftirlitið í síðasta mánuði kaup Arctic Adventures á helstu eignum Icelandic Tourism Fund en eins og Markaðurinn hefur greint frá eru kaupin hins vegar ekki frágengin og eru viðræðurnar um þau sagðar á viðkvæmu stigi.
Hagnast um 339 milljónir króna
