Samkvæmt ársreikningi Keahótela, sem rekur tíu hótel víðs vegar um landið, þar á meðal Apótek og Borg, námu rekstrartekjur keðjunnar liðlega 4,0 milljörðum króna á síðasta ári borið saman við 3,1 milljarð króna árið 2017.

EBITDA Keahótela – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 574 milljónir króna í fyrra en til samanburðar var hún jákvæð um 587 milljónir króna árið áður.
Hótelkeðjan er sem kunnugt er í eigu eignarhaldsfélagsins K Acquisitions en að baki því standa bandaríska fasteignafélagið JL Properties með 25 prósenta hlut, bandaríska eignastýringarfélagið Pt Capital Advisors með 50 prósenta hlut og fjárfestingafélagið Tröllahvönn, sem er í eigu Andra Gunnarssonar, Kristjáns M. Grétarssonar, Fannars Ólafssonar og Þórðar Hermanns Kolbeinssonar, með 25 prósenta hlut.
Eignir Keahótela voru tæpir 1,8 milljarðar króna í lok síðasta árs en á sama tíma var bókfært eigið fé keðjunnar 1,0 milljarður króna og eiginfjárhlutfallið því 57 prósent.