Skoðun

Eitt fyrsta landið í heimi

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Alþingi hefur nú tekið sögulegt skref um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Með lögfestingunni verður Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og mun það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.

Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings, sem hefur einungis verið fullgiltur eins og hér hefur verið gert, við íslensk lög víkja ákvæði samningsins.

Í nýlegum Hæstaréttardómi er sérstaklega nefnt að þar sem Ísland hafi einungis „fullgilt“ samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks en ekki „lögleitt“ samninginn gætu dómkröfur í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings. Að sjálfsögðu hafa mannréttindasáttmálar sem Ísland hefur fullgilt áhrif á lagatúlkun.

Fyrsta þingmálið mitt sem ég lagði fram á Alþingi eftir að ég settist aftur á Alþingi fyrir tveimur árum var að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ætti að lögfesta. Það vill svo til að síðasta þingmál sem ég lagði fram áður en ég hætti á þingi 2009 og fékk samþykkt á Alþingi var að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna bæri að lögfesta. Ísland var einnig eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta hann.

Við höfum í raun einungis lögfest þrjá meginalþjóðasamninga og eru það Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall.




Skoðun

Sjá meira


×